Fréttir
OPJ námskeið hjá Sálarrannsóknarfélagi Skagafjarðar.
Þann 26. október 2025 lauk OPJ námskeiði sem haldið var hjá Sálarrannsóknarfélagi Skagafjarðar. Leiðbeinandi var Björn Guðmundsson OPJ meistari.

Sitjandi frá vinsti: Rósa María Vésteinsdóttir, Freyja Fannberg Þórsdóttir, Björn Guðmundsson og Kristjana Erna Helgadóttir. Standandi frá vinstri: Þór Fannberg Gunnarsson, Stefanía Fjóla Finnbogadóttir, Einar Indriði Gíslason, Hildur Claessen og Þórdís Ósk Rúnarsdóttir.
OPJ Orku Punkta Jöfnun
Stutt lýsing á OPJ meðferð
Garðar Jónsson miðill f. 21.06.1966 d. 1.3. 2021 vann í mörg ár með OPJ og mótaði með hjálp stjórnanda síns Jóakim þessa tækni og kom henni í það form að geta kennt hana öðrum. Eins og Garðar segir: “OPJ Orku Punkta Jöfnun er í raun ótrúleg tækni, einföld en um leið svo merkilega árangursrík að manni stendur ekki á sama stundum. Orka er eins og vatnið í brunninum, hefur engan tilgang fyrr en maður notar hana, á þessum grunni er OPJ tæknin byggð”.
Til að okkur líði vel og höldum heilbrigði er nauðsynlegt að orkuflæðið í líkama okkar sé í góðu jafnvægi. Ef orkuflæðið stíflast eða einhver tregða er á því um líkamann eða líkamshluta þá miðar OPJ meðferðin að því að leiðrétta og opna orkuflæðið á milla orkupunkta. OPJ byggist á því að virkja orkuna með því að koma af stað eðlilegu flæði á milli orkupunktanna sem líkaminn er þakinn af. Hver orkustöð tengist útí veraldlega líkamann og myndar svokallaða orkupunkta – klasa, þessir orkupunktar viðhalda eðlilegri hringrás orkunnar þ.e. andlegu orkunnar inní efnislíkamanum og næra hann og styðja. Tölurnar 3, 7 og 9 eru andlegar tölur og er unnið út frá tölunni 7 þegar unnið er með orkupunkta. 7 orkustöðvar – 49 orkupunkta-klasar – 343 orkupunktar.
Af hverju lokast orkupunktar? Margar ástæður geta legið þar að baki t.d. vegna slyss, sjúkdóma og aðstæðna í veraldlega og eða andlega lífinu. Þegar manneskja þjáist af t.d. vöðvabólgu, höfuðverk eða verkjum í fótum þá hjálpar þessi aðferð til að bæta orkuflæðið um áðurnefnd svæði. Fólk sem lent hefur í áföllum getur líka nýtt sér þessa aðferð til að hjálpa því að ná bata. Þessi aðferð kemur ekki í stað læknisfræðilegra aðferða en er góð viðbót og getur flýtt fyrir bata.
Þegar þú ferð í meðferð hjá OPJ þerapista/heilara þá byrjar meðferðin á samtali ykkar á milli þar sem rætt erum heilsufar og hvaða staðir það eru sem þarf að vinna með og síðan tekur við meðferð sem getur farið fram annað hvort á bekk eða í stól. Meðferðin felst í því að meðferðaraðilinn ýtir létt á sett tveggja punkta á líkamanum, skynjar orkuflæðið á milli punktanna, ef það er ekki í lagi þá leitast hann við að opna fyrir eða leiðrétta orkuflæðið. Þegar flæðið er komið í gang leitast bæði andlegi og líkamlegi hlutinn að viðhalda orkuflæðinu. Að meðferð lokinn er tekið samtal um upplifunina.
50 ára afmælisfagnaður félagsins.
Haldið var upp á 50 ára afmæli Sálarrannsóknarfélagsins með veglegri dagskrá og veitingum í Ljósheimum í Skagafirði 13. apríl 2023.

Sigríður Ingólfsdóttir formaður félagsins var með inngangserindi.

Dúa Stefánsdóttir formaður Sálarrannsóknarfélags Akureyrar flutti ræðu og færði félaginu stóran saltsteinslampa að gjöf.

Jón Ormar Ormsson, stofnfélagi Sálarrannsóknarfélagsins, sagði frá stofnun félagsins og lét nokkrar góðar sögur fylgja með.

Unnur Teits Halldórsdóttir miðill var með skyggnilýsingu.

Vorvindar Glaðir fluttu nokkur vel valin lög.

Fjölmennt var á afmælisfagnaðinum og boðið upp á kaffi og meðlæti.
